<$BlogRSDURL$>

Saturday, April 03, 2004

Það er alveg ýkt gaman að vera orðinn bloggari. Að vera partur af enn einu nýju samfélagi. Já, ég er enn í þessum samfélagspælingum og er greinilega ekkert að fara að tala um gjörninga alveg strax.
Í gær fékk ég einmitt að gægjast inn um nýjan glugga samfélagsins, fór nefnilega á Alþjóðahúsið á Hverfisgötunni. Það er svona miðstöð fyrir útlendinga, þar sem þeir leita upplýsinga og aðstoðar. Á kvöldin er þetta kaffihús og bar. Ég var í góðum félagsskap með Ásu, Pálma og vinkonu Ásu sem heitir Tóta. Við vorum í feiknar stuði enda fullt af blóðheitu liði dansandi í kringum okkur - og úr okkur stífnina - við salsa tónlist, tequila vætti kverkar okkar og fólkið þarna inni virtist einhvernveginn svo heilbrigt og skemmtinlegt. Ég er greinilega bara orðin vön því að á ísklenska djamminu séu stingandi augnaráð ókunnugra stelpna eða útvíddir nasavængir kókaínfíkla að trufla ánægju mína..... Æ, veistu hvað ég er að meina?! Þetta var mjög ágæt byrjun fyrir mig í endurkomu minni til landsins að kíkja akkúrat á svona bar. Smeygja sér hægt inn, fara á bar með alþjóðlegri stemningu og taka ekki eftir neinum sem er alltof meðvitaður um sig. Þarna var verið að dansa uppá borðum og hnikkja mjöðmum í gríð og erg. Það var þetta sem ég þurfti eftir 4 mánuði í trekk að hugsa ekki um neitt annað en bleijuskipti og matartíma dóttur minnar. ---------------- Hún er samt best! ----------------

Friday, April 02, 2004

Það á ekki að hljóma eins og ég þoli ekki Land og þjóð því þannig er ekki í pottinn búið. Sko ég er meira að segja með málstæki á takteinum. Það tekur bara tíma að venjast breytingunum. Meira að segja fyrir mig sem sennilega flokkast sem bærileg þjóðremba.
Það kom reyndar sjálfri mér á óvart, þegar ég var úti, hvað maður átti auðvelt með að svara hinum fáránlegustu spurningum. Ég hef fengið spurningar sem maður mætti halda að aðeins byggingarverkfræðingur gæti svarað, eins og "Hvernig efni er helst á þökum húsanna á Íslandi?" !!! Ég svaraði náttúrulega bárujárn. Reyndar voru nú ekki allar spurningar svona, en margar voru svona og svona...
Ég var meira að segja beðin um að halda fyrirlestur í skólanum mínum þar sem ég lærði hönnun og leiklistarkennslu, sem ég og gerði! Það var bombað á mig svo mikið af spurningum eftir fyrirlesturinn að hann dróst svo mikið á langinn að við misstum úr tíma.
Ég á vinkonu sem ég kynntist þarna sem ætlar að koma til Íslands bráðlega. Hún er leiklistarnemi með hæfileika í performance líka, dýrkar Sigurrós og Björk og svona! Já það er gaman að þessu.....
Tölum meira um gjörninga seinna!


Thursday, April 01, 2004

Nú er ég komin til Landsins, úr sól og sumari í Dk. í snjó og slyddu og hryssingskulda. Ég er svolítið utanveltu í þessu samfélagi ennþá enda ekki við öðru að búast! Annars er ég þó búin að vera mikið að krúsa innan kerfisins síðustu daga svo að á þann hátt er ég alveg "inn" sko! Á hinn bóginn fíla ég mig utanveltu þegar ég er úti í samfélaginu; bara að labba í Þingholtunum, horfandi á feimnislega rokkaragaura ganga framhjá mér eins og vofur. Horfa niður fyrir sig á skó sína eins og þeir séu áhugaverðastir af öllu, þeir eru hvort sem er búnir að labba Amtmannsstíginn 60 sinnum í mánuði í nokkur ár og þekkja sögu hvers húss og hvers manns sem bjó þar einu sinni. Catwalkið er alveg blautt og sleipt en samt láta kerlurnar það ekki á sig fá og ganga á pinnum sínum fram og til baka.
Ég heyri ákveðna hlýju þegar ég heyri fólk tala saman, það er íslenskan! Ég hef greinilega saknað hennar. Það er sem sagt ekki af því ég er að hlusta á einlægar samræður!
Það er alveg helling af liði að fíla sig í lopapeysunum gömlu góðu, þær eru víst að standa fyrir sínu hérna hjá landanum. Það er sveitó stemning og hún er bæði notarleg og ekki... Kannski hún væri notarlegri ef það væri ekki ennþá vetur? Þá væri ekta sveitasæla.
Stóra systir sem er nýkomin frá Hollandi er nú enn og aftur að leggja land undir fót og skellir sér til Costa Rica í dag. Ég sagði kærastanum hennar, þegar hann kom að sækja hana, að hún væri farin út á völl! Hún hefði verið svo stressuð. Hann beit á agnið og varð hálfvandræðarlegur... Það er jú 1.Apríl!
Ég hef aðeins einu sinni hlaupið aprílgabb. Þá hringdi Helga vinkona mín og bað mig að koma út í hjólatúr. Ég var sko til í það! Hún sagði að það væri gluggaveður svo ég yrði að klæða mig vel. Ég smurði nesti sönglandi og dúðaði mig alla. Á leiðinni til Helgu var ég að kafna úr hita, það var sennilega 15 stiga hiti. Þegar ég kom sagði Helga. "Fyrsti Apríl! Ég nenni ekki út að hjóla!" Það var sko gott gabb á mig en allavega var heitt úti og sól...................................


This page is powered by Blogger. Isn't yours?